Um EMDR meðferð
EMDR meðferð vinnur úr áföllum með allt öðrum hætti en hefðbundin viðtalsmeðferð. Segja má að áföll festist í taugakerfinu og þar séu þau frosin í minningunni. Þau áföll sem eru föst í heilanum, taugakerfinu og líkamanum hafa bein og óbein áhrif á einstaklinginn. EMDR aðferðin notar tvíhliða áreiti (bi-lateral stimulation) eins og augnhreyfingar fram og til baka, hljóð í sitthvort eyra, létt bank sitt á hvað í lófa eða á hnén á meðan að einstaklingurinn fer í gegnum atburðinn með aðstoð EMDR meðferðaraðilans.
Þetta er hluti af EMDR ferlinu sem vinnur að því að losa um frosnar minningar og upplifanir. Tvíhliða áreitið hleypir af stað úrvinnslu minninganna í heilanum og taugakerfinu og þær færast yfir í eðlilegt minni. Sá sem er í meðferðinni þarf ekki að lýsa eða útskýra atburðina til að geta unnið úr þeim í þessu ferli. Þessi aðferð getur dregið úr einkennum og vanlíðan sem hafa verið viðvarandi, aflétt áhrifum í líkamanum og leyst upp kveikjur hjá einstaklingnum og bætt viðhorf hans til sjálfs síns.
EMDR hentar öllum óháð aldri
EMDR er fyrir fólk sem orðið hefur fyrir erfiðri reynslu, upplifað stór eða smá áföll sem trufla líf þess mánuðum og jafnvel árum saman eftir að atvikin áttu sér stað. EMDR hentar börnum, unglingum og fullorðnum. Sumir íslenskir meðferðaraðilar hafa sérhæft sig í að vinna með mismunandi aldurshópum og mismunandi vanda.
Vakin er athygli á því að dáleiðsla er ekki EMDR meðferð.
Heildstæð sálfræðileg meðferð
EMDR er heildstæð sálfræðileg meðferð sem þróuð var til að vinna úr afleiðingum áfalla og er viðurkennd af World Health Organization (2013) og International Society for Traumatic Stress Studies (ISTSS, 2018). Sumir þættir EMDR meðferðar eru einstakir fyrir þessa nálgun, en meðferðin nýtir einnig ýmsa þætti úr öðrum eldri, árangursríkum meðferðarformum, s.s. hugrænni atferlismeðferð og dýnamískum meðferðarformum.
Úrvinnsla erfiðra minninga og tilfinninga
EMDR meðferð snýst um úrvinnslu upplýsinga sem sitja í heila og taugakerfi, svo sem erfiðra minninga, hugsana og tilfinninga. Einn helsti kostur meðferðarinnar er að það þarf ekki að tala um atburðinn í smáatriðum eða vinna heimavinnu. Við úrvinnslu eru fyrst og fremst notaðar augnhreyfingar en einnig annað tvíhliða áreiti svo sem að slá létt á sitt hvort hnéð eða fylgja punkti sem hreyfist frá hægri til vinstri á meðan einstaklingurinn hefur minninguna í huga.
Virkni EMDR
Rannsóknir hafa bent til þess að tvíhliða áreiti á skynfæri eins og sjón og heyrn hafi svipuð áhrif á rafvirkni heilans og gerist í draumsvefni (REM/rapid eye movement). Þetta ýtir undir úrvinnslu minninga sem eru geymdar með sterkum líkams- og tilfinningaviðbrögðum. Fleiri kenningar hafa líka verið settar fram um hina öflugu virkni EMDR meðferðar. Hægt er að lesa sér meira til um rannsóknir á vefsvæði EMDR Institute og hjá Francine Shapiro Library.
EMDR hentar fólki á öllum aldri
Rannsóknir hafa sýnt að EMDR meðferð getur hjálpað þeim sem þjást af sálrænum vanda sem rekja má til einhvers konar áfalls, svo sem ofbeldis, náttúruhamfara eða slysa. EMDR hefur einnig reynst vel við meðferð annarra vandamála, eins og vanrækslu, verkkvíða eða lágu sjálfsmati.
Stór og smá atvik geta haft afleiðingar
Stundum getur tiltölulega hversdagslegur atburður í æsku, eins og að vera strítt af jafnöldrum eða jafnvel samskipti við foreldri haft truflandi áhrif fram á fullorðinsár. Segja má að þá hafi einstaklingurinn ekki náð að vinna úr atburðinum og getur hann því valdið vanlíðan og jafnvel leitt til ógagnlegra viðbragða við ýmsum aðstæðum.
Árangur EMDR meðferðar
EMDR meðferð getur hjálpað einstaklingnum við úrvinnslu þessara atburða og breytt óhjálplegum viðbrögðum og aðlögunarleiðum í hjálplegar leiðir. Algengt er að árangursrík EMDR úrvinnsla leiði til styrkari sjálfsmyndar og bættra lífsgæða.
Mikilvæg aðstoð við úrvinnslu áfalla
Venjulega vinnur einstaklingurinn úr erfiðri reynslu án inngrips, þá má segja að bati sé sjálfkvæmur. Í sumum tilvikum, þegar reynslan er yfirþyrmandi eða áföll endurtaka sig, getur farið svo að ekki næst að vinna úr áfallinu. Slík óuppgerð áföll og minningar um þau geta varðveist í nær upprunalegu formi í heilanum.
Unnið með minningar sem valda vanlíðan
Minningarnar eiga það síðan til að hafa neikvæð áhrif á hegðun og líðan einkum ef viðkomandi upplifir eitthvað sem minnir á upphaflegu reynsluna. Í EMDR úrvinnslu leiðréttist upplifunin innan frá hjá skjólstæðingnum án beinna áhrifa frá meðferðaraðila. Rétta svarið fyrir einstaklinginn birtist honum innan frá með úrvinnslu sem verður í heilanum með EMDR aðferðinni.
Uppruni EMDR - Dr. Francine Shapiro
EMDR er meðferðarform sem var þróað upp úr 1987 af Dr. Francine Shapiro sem var klínískur sálfræðingur og sérfræðingur við rannsóknarstofnun í geðrænum vandamálum í Palo Alto í Bandaríkjunum. Í dag er meðferðin viðurkennd af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, ásamt mörgum erlendum og alþjóðlegum stofnunum, sem árangursrík meðferð við áfallastreituröskun og ýmsum öðrum áskorunum.